GunHil – skapandi staður

GunHil er stofnað af Gunnari Karlssyni og Hilmari Sigurðssyni en þeir hafa unnið saman að skapandi verkefnum í yfir 30 ár. Sú vinna hefur verið á sviði auglýsinga, hönnunar, nýmiðlunar, tölvuteikni- og kvikmyndagerðar.

Grunnurinn að GunHil er sú langa reynsla sem þeir félagar búa yfir. Reynsla sem gerir það að verkum að fljótt og örugglega er hægt að greina verkefni, leggja upp stefnumörkun, gera raunhæfar framkvæmdaáætlanir og svo að sjálfsögðu að framkvæma , allt eftir eðli verkefna. Það þarf ekki að finna upp hjólið fyrir öll verk en að sjálfsögðu er það gert, þegar tilefni er til.

Á sínum ferli hafa Gunnar og Hilmar unnið að auglýsinga- net, og hönnunarmálum fyrir fjölmörg fyrirtæki með góðum árangri. Þeirra reynsla spannar vítt svið í mörgum greinum eins og matvæla- og drykkjariðnaði, flutningaiðnaði, verslun, þjónustu, bílaiðnaði, tæknigreinum, prentiðnaði, upplýsingatækni og kvikmyndaiðnaði, svo fátt eitt sé nefnt. Þeir hafa unnið til óteljandi verðlauna og viðurkenninga fyrir vinnu sína, bæði hér heima og erlendis, hvort sem er fyrir auglýsingavinnu, hönnun, nýmiðlun eða tölvuteiknimyndagerð.

Hilmar er framkvæmdastjóri og framleiðandi í GunHil. Hann var áður framkvæmdastjóri og framleiðandi í CAOZ hf. þar sem hann stýrði uppbyggingu fyrirtækisins í að verða eitt af leiðandi fyrirtækjum í Evrópu á sviði tölvuteiknimyndagerðar. Áður en hann kom til CAOZ var hann framkvæmda- og hönnunarstjóri í netráðgjafarfyrirtækinu Icon Medialab í Kaupmannahöfn sem stækkaði úr 4 starfsmönnum í yfir 120 á hans starfstíma þar. Hilmar hefur auk þess yfir 25 ára reynslu sem grafískur hönnuður og vann lengi sem hönnunarstjóri á auglýsingastofum í Reykjavík, Milanó og Kaupmannahöfn. Hilmar er með BFA í grafískri hönnun.

Gunnar Karlsson er landsþekktur listamaður og leikstjóri. Hann á að baki fjölda auglýsinga í sjónvarpi, blöðum og netmiðlun, auk þess að teikna vikulega skopmynd í Fréttablaðið í áraraðir. Gunnar var leikstjóri og útlitshönnuður á öllum teiknimyndum sem CAOZ framleiddi á hans 11 ára starfstíma þar, þar með talið tölvugerðu teiknimyndinni Hetjum Valhallar – Þór, fyrstu íslensku teiknimyndinni í fullri lengd. Gunnar er útskrifaður úr Listaháskóla Íslands og stundaði framhaldsnám við Konunglegu listaakademíuna í Stokkhólmi.

GunHil teygir anga sína víðar og er með skrifstofu í Lundi í Svíþjóð sem Haukur Sigurjónsson veitir forstöðu. Haukur er með bakgrunn í leikjaiðnaðinum frá Bretlandi og Danmörku. Hann er sérfræðingur okkar í margmiðlun og tengslum hinna nýju miðla við þá hefðbundnu.

Þú finnur símanúmer og annað til að hafa samband við okkur hér á enska hluta síðunnar.

– – –
GunHil er einkahlutafélag, stofnað þann 1. apríl 2012 – kennitala 510412-0280.
Vsk. númer 110760.

PWC eru endurskoðendur GunHil ehf.

GunHil er dótturfyrirtæki Sagafilm ehf. kt. 590578-0109

Stjórn fyrirtækisins skipa:
Árni Geir Pálsson, stjórnarformaður
Hrönn Þorsteinsdóttir, meðstjórnandi
Ragnar Agnarsson, meðstjórnandi

Hilmar Sigurðsson er framkvæmdastjóri GunHil ehf.

Latest from our blog: